140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað verður að fara að taka í taumana, að stoppa þessa vitleysu og reyna að hafa vit fyrir stjórnvöldum, það gefur augaleið. En ég er nú orðinn efins um að sumir einstakir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna trúi því lengur sjálfir þegar þeir segja að þetta séu ekki aðlögunarviðræður heldur aðildarviðræður. Auðvitað sjáum við hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir flokkinn að það sem var helsta stefnumál hans — ég heyrði það til að mynda víða í kjördæmi mínu þar sem menn höfðu efasemdir um að hvort Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gætu staðið í lappirnar gagnvart Evrópusambandinu, að það væri óhætt að treysta Vinstri grænum í þeim efnum og Vinstri grænir fengu að mínu viti allt of mörg atkvæði út á það víða um land. En auðvitað eiga þeir eftir að gera skil á efndum á kosningaloforðum sínum til kjósenda sinna í næstu kosningum. (Forseti hringir.) Auðvitað trúir því enginn núna, að minnsta kosti ekki meginþorri hv. þingmanna Vinstri grænna.