140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú svo skondið, ég er búinn að vera á þingi síðan 1999 og þá var formaður Framsóknarflokksins Halldór Ásgrímsson. Ég vissi ekki harðari ESB-sinna en hann á þeim tíma og næstu ár á eftir. Hins vegar vitum við hvernig flokkur hans fór og ég gleðst yfir því að hv. þingmaður, núverandi formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skuli hafa gjörbreytt stefnu þess formanns sem var næst á undan honum og sé núna eindreginn andstæðingur Evrópusambandsaðildar og inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er virkilegt fagnaðarefni. Ég fagna því að svo sé, en ég man vel eftir ræðum Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, og aðdáun hans á Evrópusambandinu, ég man hversu mikilvægt hann taldi að Ísland gengi í Evrópusambandið. (Forseti hringir.)

Eins og við munum galt flokkur hans afhroð einmitt vegna þeirrar stefnu hans.