140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í umræðu um þetta mál hafa menn bent á ýmsa ágalla á því. Það á bæði við um tæknilega ágalla og eins stórpólitísk álitamál, til að mynda spurninguna um hvort eðlilegt sé að Íslendingar falist eftir eða taki við fjárstuðningi, styrkjum til þess að aðlagast Evrópusambandinu, á sama tíma og Evrópusambandið beitir okkur vægast sagt hörðu á að minnsta kosti tvennum vígstöðvum.

Jafnframt hefur mikið verið rætt um að í þessu felist að sjálfsögðu eins og raunar kemur fram, bæði í þingsályktunartillögunni sjálfri að einhverju leyti en þó umfram allt í gögnum frá Evrópusambandinu, að um sé að ræða styrki til þess að aðlagast, þetta sé með öðrum orðum staðfesting á því að Ísland sé komið í aðlögunarferli.

Áður en ég kem að þessum atriðum ætla ég hins vegar að byrja á að segja nokkur orð um það sem hv. þm. Jón Bjarnason lýsti yfir áðan. Hv. þingmaður var býsna afdráttarlaus í umsögn sinni um þetta mál, talaði um mútufé og að ætlunin væri að láta Íslendinga ánetjast styrkjum Evrópusambandsins. Mátti lesa það úr orðum hv. þingmanns að fyrstu styrkirnir væru ókeypis en svo þegar menn væru búnir að ánetjast hefðu þeir lítið val og þá væru styrkirnir ekki lengur ókeypis, þá þyrfti að borga fyrir þá.

Það er nefnilega mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum Evrópusambandið og styrkjamál að það liggur ljóst fyrir að ef Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu mundum við borga meira inn í sambandið til að standa undir styrkjagreiðslum þess til hinna ýmsu ríkja og öðrum kostnaði en við fengjum frá því. Einfaldlega út frá landsframleiðslu okkar Íslendinga er ljóst að við mundum borga meira inn í sambandið en við fengjum frá því. Þegar menn telja því upp þau góðu verkefni sem hægt sé að sinna með styrkjum frá Evrópusambandinu er okkur þingmönnum í sjálfsvald sett að forgangsraða á þann hátt að við sjálf, Íslendingar, styrkjum þessi verkefni með íslensku skattfé og höfum þá meira svigrúm til þess en ef við værum aðilar að Evrópusambandinu vegna þess að þá værum við ekki aðeins að fjármagna okkar eigin styrki heldur einnig styrki til annarra landa. Það er ekki eins og hér sé um að ræða fyrsta skammtinn af ókeypis peningum sem muni halda áfram að streyma hingað frá Evrópusambandinu, þvert á móti er þetta eingöngu spurning um að laga Ísland að fyrirkomulagi sem við þyrftum til lengri tíma lítið að borga meira fyrir en við fengjum út úr. Það er viðbúið að skekkjan hvað það varðar muni einungis aukast í ljósi aðstæðna í Evrópusambandinu núna.

Til að mynda þyrftum við að borga til viðbótar við þessi beinu framlög og það sem færi í styrki gríðarlega háar upphæðir inn í Evrópska seðlabankann og taka ábyrgð á enn hærri upphæðum þar vegna svokallaðra björgunaraðgerða sem nú standa yfir til stuðnings við evrópska banka og ríki sem standa höllum fæti. Framlög okkar Íslendinga til Evrópusambandsins yrðu miklu meiri en gera má ráð fyrir að við fengjum greitt þaðan. Þetta ástand og þessi kostnaður er sífellt að aukast. Nú í kvöld, fyrir fáeinum klukkutímum, komu fréttir frá Grikklandi sem sagt er frá á mbl.is þess efnis að áhlaup sé hafið á gríska bankakerfið, enn meira áhlaup en verið hefur. Ég vitna, með leyfi forseta, beint í orð sem höfð eru eftir forseta landsins:

„Ástandið er slæmt í gríska bankakerfinu og í gær voru 700 milljónir evra, 114,3 milljarðar króna, teknar út af bankareikningum í landinu …“

Menn óttast að þetta sé aðeins vísbending um það sem koma skal næstu daga og reyndar ljóst að í að minnsta kosti tvö ár hefur staðið yfir áhlaup á gríska bankakerfið og Evrópski seðlabankinn þurft að dæla fjármagni þar inn. Kostnaðurinn við aðild að Evrópusambandinu mun þannig einungis aukast næstu missirin.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta í tengslum við umræðuna um IPA-styrkina er að þeir sem hafa verið hvað mest fylgjandi þessum styrkjum hafa reynt að draga upp þá mynd að þarna væri fundið fé, þarna væri Ísland að fá fyrsta skammtinn af ókeypis fjármagni frá Evrópusambandinu og fráleitt að afþakka það. Það er auðvitað ekki svoleiðis. Þetta er hugsað sem leið til að laga okkur að kerfi sem mun kosta okkur miklu meira en við fáum út úr því.

Þá ætla ég að snúa mér að umræðunni um hvers eðlis þetta umsóknarferli er. Þær tillögur sem við ræðum hér staðfesta það sem reyndar hefur að mínu mati og margra annarra legið fyrir alveg frá upphafi, að þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu er það að biðja um að verða þátttakandi í því sem Evrópusambandið gengur út á og aðlagast fyrirkomulagi þess. Evrópusambandið sjálft hefur ekkert reynt að fela þessa staðreynd, þvert á móti, þar á bæ hafa menn jafnvel reynt annað slagið að benda Íslendingum á að þetta sé raunin, minna þá á þegar umræðan hefur verið farin út um þúfur en gengið hálferfiðlega, jafnvel þrátt fyrir formlegar ályktanir og bréfaskriftir.

Ég hef nefnt það hér áður að sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins fékk á árinu 2010 bréf frá Evrópusambandinu þar sem varað var við því að tala um samningaviðræður vegna þess að það væri villandi orðalag. Orðið samningaviðræður gæfi til kynna að verið væri að semja um eitthvað, tveir aðilar væru að ná samningum sín á milli. Þannig væri það ekki, þegar ríki sækti um aðild að Evrópusambandinu væri það eingöngu spurning um með hvaða hætti það ríki ætlaði að laga sig að Evrópusambandinu.

Sama ár, 2010, birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Laga þarf stjórn- og dómskerfi Íslands að regluverki Evrópusambandsins áður en aðild kemur til greina og mun hraði aðildarviðræðna ráðast af því „hve vel Íslandi tekst að uppfylla kröfur vegna aðildar“.“

Eftir hverjum skyldi þetta hafa verið haft? Jú, þetta kom fram í greinargerð ríkjaráðstefnu aðildarríkja Evrópusambandsins, hvorki meira né minna. Þetta var ekki skoðun einhvers þingmanns á Evrópuþinginu, einhvers eins þingmanns, þetta var ekki eitthvað sem einhver þingmaður þar sagði og ætlaði til heimabrúks, eins og hæstv. utanríkisráðherra eða hæstv. efnahagsráðherra tala stundum um. Nei, þetta var greinargerð ríkjaráðstefnu aðildarríkja Evrópusambandsins. Skýrara getur þetta ekki verið, og það sem við ræðum hér í dag eru styrkir til að flýta þessari aðlögun og fjármagna hana að einhverju leyti.

Ástæðan fyrir því að Evrópusambandið veitir þessa styrki er sú að á undan Íslandi sóttu þar um ríki sem voru með mun vanþróaðri innviði en við höfum þrátt fyrir allt á Íslandi og Evrópusambandið taldi nauðsynlegt að styrkja þau ríki í að laga þá innviði að Evrópusambandinu eftir að þau höfðu sótt þar um enda lá þar fyrir eindreginn vilji til þess að ganga í Evrópusambandið. Það er annað sem hefur alltaf verið svolítið sérkennilegt við umræðuna á Íslandi, það er gefið í skyn að við séum ekki endilega að sækja um til að ganga í Evrópusambandið. Nei, það er ekki bara gefið í skyn, því er haldið fram af þeim sem að umsókninni standa að við séum að sækja um til að sjá hvað er í boði en ekki endilega til að ganga inn. Í framhaldi af því kemur svo umræðan um að við verðum að fá samning á borðið til að geta tekið afstöðu. Eins og ég ræddi áðan liggur það alveg fyrir frá upphafi hvað felst í því að ganga í Evrópusambandið og Evrópusambandið sjálft hefur hvað eftir annað reynt að útskýra þetta.

Þá ætla ég að koma aðeins inn á tæknilegu atriðin varðandi þessa tillögu. Því miður er þetta ekki fyrsta málið og ekki annað og ekki þriðja þar sem ekki er tekið tillit til athugasemda og viðvarana sem koma frá þeim sem best þekkja til um að nauðsynlegt sé að bæta úr tæknilegum ágöllum á frumvörpum eða þingsályktunartillögum. Hér sáu endurskoðendur eða félag þeirra á Íslandi sérstaklega ástæðu til að vara við því hversu óljósar reglurnar væru sem innleiddar yrðu samkvæmt þessari tillögu og benda jafnframt á að með þessu væri verið að innleiða mismunun. Þau skattfríðindi sem gert er ráð fyrir að Evrópusambandið og fulltrúar þess njóti samkvæmt þessum tillögum skekkja auðvitað mjög samkeppnisstöðu annarra sem starfa á sama sviði. Þeir þurfa áfram að borga fullan skatt af starfsemi sinni svoleiðis að þeir eiga mjög erfitt með að keppa við þá sem þurfa ekki að greiða skatt af hinu sama.

Það hlýtur að vera sérstakt áhyggjuefni að hér sé ætlunin að innleiða slíka mismunun, skekkja samkeppnisstöðu. Maður hefði haldið, miðað við alla umræðuna um það hversu óásættanleg mismunun væri samkvæmt EES-samningnum — ég vísa meðal annars til Icesave-deilunnar — að Evrópusambandið sjálft og talsmenn þess hér hefðu aðeins meiri vara á en er raunin samkvæmt þessum tillögum þar sem gert er ráð fyrir að innleiða mismunun sem er svo hrópleg að sérfræðingar sjá ástæðu til að vara sérstaklega við því.

Hitt varðar það sem ég nefndi áðan um flækjustigið. Það er því miður ekkert nýtt heldur. Við höfum hvað eftir annað séð frumvörp keyrð í gegnum þingið illa unnin og ófullbúin til þess eins að valda síðan vandræðum eftir að þau hafa verið leidd í lög. Jafnvel hefur þingið eða meiri hluti þess — það er rétt að hafa það í huga að fyrst og fremst eru þetta stjórnarfrumvörp, studd af ríkisstjórninni sem um er að ræða — fengið þann dóm hjá dómstólum að þingmálin brjóti stjórnarskrá eða séu ónothæf. Slíkur hefur flumbrugangurinn verið og það er margt sem bendir til þess að hér séum við að ræða enn eitt slíkt málið. Það er óskiljanlegt hvers vegna menn læra ekki af reynslunni hvað þetta varðar.

Svo verður ekki hjá því komist að nefna aðeins álitamál varðandi Vínarsamninginn. Því er haldið fram af þeim sem tala fyrir þessu máli hér að ekkert sé út á skattfríðindin að setja vegna þess að meðhöndla beri Evrópusambandið eins og ríki og þar af leiðandi eigi þeir sem starfa fyrir Evrópusambandið hér að njóta sams konar skattfríðinda og fulltrúar erlendra ríkja, til að mynda eins og sendiráð erlendra ríkja. Gott og vel, ef skilningurinn er að Evrópusambandið sé ríki og eigi þess vegna að lúta reglum Vínarsáttmálans hér, hvað segir það okkur þá um það bann sem er í Vínarsáttmálanum við því að erlend ríki styðji áróður í þeim löndum þar sem þau hafa starfsaðstöðu, sendiráð og slíkt? Það er nefnilega bannað samkvæmt Vínarsáttmálanum svoleiðis að ef menn ætla að rökstyðja skattfríðindin í þessum tillögum út frá því að Evrópusambandið sé ígildi ríkis hlýtur hið sama að eiga við um það er varðar bannið við áróðri. Það setur áróðursstarfsemi Evrópusambandsins hér, kynningarstarfsemina, í mjög undarlegt ljós.

Fram til þessa hafa menn haldið því fram að það ætti alls ekkert við um Evrópusambandið vegna þess að það væri ekki ríki, menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af Vínarsáttmálanum og því að Evrópusambandið ræki hér einhvern áróður. En nú segja menn: Lítum á Evrópusambandið sem ríki með hliðsjón af Vínarsáttmálanum. Á hvorn veginn á það að vera? Þetta vekur að minnsta kosti stórar spurningar en við fáum engin svör við þessum spurningum vegna þess að þeir sem reyna að reka þetta mál áfram í þinginu hafa ekki einu sinni fyrir því að mæta til umræðunnar og taka þátt. Við verðum að halda áfram, þingmenn stjórnarandstöðunnar og stöku þingmenn stjórnarliðsins, að velta þessu fyrir okkur og reyna að finna svörin í umræðum okkar á milli.