140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að gera lagfæringar í samræmi við ábendingar sérfræðinga um mjög alvarlega galla á þessu máli. En eins og ég nefndi áðan virðast menn einfaldlega ekki hafa áhyggjur af slíku, telja það að minnsta kosti smávægilegt samanborið við stóra markmiðið sem er að þoka þessu umsóknarferli áfram.

Ég nefndi reyndar áðan að jafnvel þeir sem vilja ganga í Evrópusambandið og segjast vilja ná þar góðum samningum hlytu að hugsa sinn gang þegar Evrópusambandið kemur fram við Ísland eins og það hefur gert undanfarin missiri og senda þá skilaboð á móti um að menn láti ekki fara svona með sig. En hver eru viðbrögðin? Nei, það er ekki gert, það er ekki reynt að standa á sínu gagnvart Evrópusambandinu eða senda því skilaboð um að yfirgangur líðist ekki hér. Þvert á móti, (Forseti hringir.) menn keyra mál í gegn jafnvel í andstöðu við álit sérfræðinga.