140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi reglugerðarheimild ráðherra þá er þetta eitthvað sem núverandi ríkisstjórn hefur farið mjög frjálslega með og er töluvert áhyggjuefni og gengur algjörlega í berhögg við allar hátíðlegu yfirlýsingarnar um mikilvægi þess að auka aðhald þingsins og tækifæri til þess að hafa hemil á eða eftirlit með framkvæmdarvaldinu. (Gripið fram í: Innihaldslaus …) Menn eru þvert á móti að færast í þveröfuga átt, menn eru að veita ráðherrunum hvað eftir annað, ekki bara í þessu máli heldur öðrum málum líka, heimildir til að hafa hlutina eins og þeim sýnist og ótrúlega (Gripið fram í.) opnar heimildir í þá veru. Ég heyri að þetta er viðkvæmt því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kallar hér mikið fram í og krefst raka fyrir þessu. (ÁÞS: Þingmaðurinn leggur það bara í vana sinn að bulla svona út í loftið.) Virðulegi forseti — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Gefið ræðumanni hljóð.)

Ég heyri að þetta er mjög viðkvæmt mál en það er þó bót í máli að einhver stjórnarliði sem styður þetta mál skuli sjá sér fært að mæta hér til að taka þátt í umræðunni þó að það sé gert eingöngu með frammíköllum úr sal. Vonandi verður bragarbót þar á og við fáum að heyra raunverulegt álit þeirra sem styðja þetta mál. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður spurði líka hvort ég teldi æskilegt að efnahags- og viðskiptanefnd færi yfir þá annmarka sem endurskoðendur hafa bent á, m.a. er varðar mismunun innlendra aðila og svo þeirra sem njóta þeirra skattfríðinda sem til stendur að innleiða með þessum tillögum. Ég tel það ekki aðeins æskilegt, ég tel það nauðsynlegt og raunar alveg ótrúlegt að málið skuli vera komið þetta langt án þess að menn hafi bætt úr þessum ágöllum, án þess jafnvel að menn hafi gert tilraun til að bæta úr þessum ágöllum og laga málið að (Forseti hringir.) þeim ábendingum sem komið hafa fram.