140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

540. mál
[23:51]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011 og fjallar um umhverfismál. Framsögumaður utanríkismálanefndar með þessu máli er hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem er fjarstödd í dag, en ég geri grein fyrir nefndaráliti.

Markmið þessarar tilskipunar er meðal annars að meta loftgæði í aðildarríkjum, afla upplýsinga um loftgæði, vinna gegn loftmengun og skaða af hennar völdum ásamt því að hafa eftirlit með langtímaframvindu og bættum loftgæðum svo og að tryggja að upplýsingar um loftgæði séu gerðar aðgengilegar almenningi. Jafnframt er markmið tilskipunarinnar að viðhalda loftgæðum þar sem þau eru mikil en bæta þau ella.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og í tilskipuninni er kveðið á um ríkari upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings að því er varðar loftgæði en nú er að finna í íslenskum rétti. Umhverfisráðherra mun einmitt flytja lagafrumvarp í samræmi við framangreint.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og leggur nefndin til að þessi tillaga verði samþykkt.

Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson formaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og leggjum við til að tillagan verði samþykkt.