140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

fríverslunarsamningur EFTA og Svartfjallalands og landbúnaðarsamningur Íslands og Svartfjallalands.

605. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða einn af þremur fríverslunarsamningum sem utanríkismálanefnd hefur verið með til umfjöllunar að undanförnu. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er framsögumaður nefndarinnar á þeim öllum. Hann hefur þegar gert ágæta grein fyrir einum af þessum samningum hér í kvöld og farið ítarlega yfir sögu fríverslunarsamninga á vegum EFTA nokkuð langt aftur í tímann og ég sé ekki ástæðu til þess að bæta þar um betur.

Sá samningur sem hér um ræðir er sem sagt á milli Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA og Svartfjallalands. Í athugasemdum með tillögunni sem um ræðir kemur fram að fríverslunarviðræðurnar við Svartfjallaland voru rökrétt framhald á útfærslu fríverslunarnets EFTA-ríkjanna á Balkanskaga, en þegar hafa verið gerðir fríverslunarsamningar á vegum EFTA-ríkjanna við nágrannaríkin Serbíu og Albaníu og viðræður standa yfir við Bosníu og Hersegóvínu. Fríverslunarsamningurinn við Svartfjallaland er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga en slíkir samningar fela einkum í sér afnám eða lækkun tolla. Í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands eru jafnframt almenn ákvæði um vernd hugverka, fjárfestingar, þjónustuviðskipti og opinber innkaup.

Þessu fylgir einnig landbúnaðarsamningur á milli Íslands og Svartfjallalands sem er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Svartfjallalands. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir þennan landbúnaðarsamning og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Svartfjallaland mun meðal annars lækka tolla á íslenskt lambakjöt, skyr og osta, en Ísland mun meðal annars fella niður tolla af ýmsum tegundum af matjurtum, grænmeti, ávöxtum, kaffi, kryddi, korni, hunangi, fræjum, plöntum, olíum, sósum og ávaxtasafa.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson framsögumaður, Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Mörður Árnason og Ragnheiður E. Árnadóttir.