140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á þeim staðreyndum sem birtust okkur í gær og í dag um að viðsnúningur hagkerfisins úr kreppu í vöxt heldur áfram skýrt og örugglega. Við fengum í gær lægstu atvinnuleysistölur sem hér hafa sést frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008, atvinnuleysið er komið niður í 6,5% og stefnir undir 6% á næstu mánuðum samkvæmt spám Vinnumálastofnunar. Þetta er auðvitað mikil framför og gleðitíðindi því atvinnuleysið fór vel yfir 9% á fyrstu mánuðunum eftir hrun. Fjöldi langtímaatvinnulausra er enn þá mikill en stjórnvöld hafa hins vegar að undanförnu skapað skilyrði fyrir rúmlega 1.000 störf fyrir þann hóp sérstaklega og hefur verið ráðið í ríflega helming þeirra nú þegar.

Það vekur líka athygli að í fyrsta sinn frá hruni íhuga fleiri atvinnurekendur í landinu að fjölga starfsfólki en fækka. Það er athyglisvert að vöxtur útflutnings er núna tvöfalt meiri samkvæmt spám Seðlabankans en spáð var í febrúar síðastliðnum, sérstaklega í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Í Peningamálum sínum í morgun hækkar Seðlabankinn hagvaxtarspá sína úr 2,5% í 2,8% fyrir þetta ár, sem þýðir að hagvöxtur verður með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Það er reyndar ástæða til að vekja sérstaka athygli á því sem kemur fram í Peningamálum Seðlabankans, að nú liggur fyrir að atvinnuvegafjárfestingin lagði jafnmikið til hagvaxtar á síðastliðnu ári og einkaneyslan en eins og við þekkjum var umræðan mjög áberandi um það að hagvöxturinn í fyrra hefði fyrst og fremst verið knúinn af einkaneyslunni. Hagvöxturinn í fyrra var sem sagt að mestu drifinn af aukinni framleiðslu í iðnaði og sjávarútvegi og síðan ýmiss konar þjónustu- og fjarskiptastarfsemi.

Hitt er áhyggjuefni og er rétt að hafa það í huga líka að verðbólgan er enn þá of mikil í hagkerfi okkar. Hún er það (Forseti hringir.) hreyfiafl sem knýr þá stýrivaxtahækkun upp á 0,5% sem Seðlabankinn kynnti í morgun og afar mikilvægt að stjórnvöld, í sameiningu við aðila vinnumarkaðarins, grípi nú til aðgerða til að ná verðbólgunni hraðar niður í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.