140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í gögnum Seðlabanka Íslands um stöðu hagkerfisins kemur fram að Seðlabankinn er að lækka spár sínar frá því sem áður var. Seðlabankinn spáir því nú að atvinnuvegafjárfesting verði minni en hann taldi áður. Þessi skilaboð eru alvarleg og enn alvarlegri í ljósi þess að bankinn er nú að hækka stýrivexti sína, sér sig til þess neyddan. Það er auðvitað alveg sérstök umræða hversu skynsamlegt það er við þessar aðstæður. En með því að bankinn er að færa niður spá sína um atvinnuvegafjárfestingu og íbúðarhúsnæði frá því sem áður var, er augljóst hvaða skilaboð bankinn er að senda, hvernig hann metur stöðuna. Það sem meira er, á sama tíma hækkar bankinn spá sína um einkaneysluna. Hann spáir því að einkaneyslan aukist. Þetta er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa í huga, frú forseti.

Ég vil líka nefna að þegar við horfum á atvinnuleysistölurnar er rétt að hafa í huga að í janúarmánuði voru 900 manns teknir af atvinnuleysisskránni í verkefninu Vinnandi vegur þar sem fólk er tekið af atvinnuleysisskrá en er í raun áfram á framfæri hins opinbera. Ég er reyndar sáttur við þá gjörð en það er ekki rétt að líta svo á að þar með hafi fólk farið til vinnu. Áfram er verið að greiða því einhvers konar bætur eða setja það inn í úrræði ríkisvaldsins.

Síðan vil ég vekja athygli á hinu, frú forseti, að í gögnum bankans er sérstaklega varað við aukinni lausung í ríkisfjármálunum. Það kemur þannig fram að bankinn hefur áhyggjur af því að meiri slaki sé að verða, sem muni setja meiri pressu á stjórn peningamála, meiri pressu á að bankinn þurfi að hækka vexti sína (Forseti hringir.) vegna þess að ekki sé haldið nógu fast um taumana í ríkisútgjöldunum. Sérstaklega er bent á þann vanda (Forseti hringir.) (Forseti hringir.) sem snýr að því að losa um höftin á gjaldeyrinum vegna þess að ef halli á ríkissjóði (Forseti hringir.) er of mikill (Forseti hringir.) verður nánast ógjörningur að losa um þau.