140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Á þessum stutta tíma hefði ég viljað gera tvennt að umtalsefni sem hefur verið í umfjöllun undanfarna daga í samfélaginu. Annars vegar vil ég ræða aðeins um aðkomu lífeyrissjóðanna að uppbyggingu í samfélaginu en nokkuð hefur verið fjallað um það í fréttum að undanförnu eftir samtöl og tilraunir til samvinnu á milli stjórnvalda og lífeyrissjóðanna.

Ég verð að segja eins og er að í því efni birtast lífeyrissjóðirnir, eða stjórnir þeirra, eins og þeir vilji ekkert gera til að leggja á sig við uppbyggingu samfélagsins og telji það jafnvel andstætt hagsmunum sjóðanna. Þeir bera fyrir sig skorti á lagaheimildum og það er nokkuð sem að sjálfsögðu þarf að skoða hvort hægt sé að ráða einhverja bót á ef það er fyrirstaðan. Annað mál í þessu samhengi hefur verið rætt í þinginu áður og hafa reyndar ýmsar tillögur verið lagðar fram þar að lútandi og varðar skattlagningu á séreignarsparnaði. Ég var í hópi þeirra sem ekki vildu fara þá leið á sínum tíma vegna þess að lífeyrissjóðirnir sjálfir voru því mjög andsnúnir og ég tek mark á þeim aðvörunarorðum. En ég hlýt að láta það sjónarmið í ljós núna að það sé eitthvað sem við verðum að fara yfir á nýjan leik og horfa þar á hagsmuni sjóðfélaganna.

Síðan vil ég nefna sjávarútvegsmálin. Það gengur mikill auglýsingabrotsjór yfir þjóðina núna, svo ekki sé meira sagt, frá útgerðarauðvaldinu. Það eru sannarlega jákvæðar fjárfestingar í sjávarútvegi en einstakir aðilar fara offari í auglýsingaherferð. Það er rétt eins og til standi að hætta að draga fisk úr sjó á Íslandsmiðum. Uppi er hræðsluáróður um að útrýma eigi störfum í sjávarútvegi, sem er auðvitað hrein fásinna. Við megum ekki láta glepjast. Kjarninn er auðvitað sá að þjóðin á auðlindina og það verður að vera óumdeilt í lagaumgjörð okkar og stjórnarskrá, en þeir sem eru vanir að ráða og ráðskast vilja auðvitað gera það áfram. Það eru ótrúlegustu aðilar sem kyrja nú sönginn með útgerðarauðvaldinu og eru bersýnilega á sömu leið og fyrir hrun. Það er falskur söngur, frú forseti.