140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt dagskrá á að ræða á eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Það er mjög merkilegt að þetta mál sé á dagskrá, sér í lagi vegna þess að það er samningsmál Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina og samkvæmt mínum upplýsingum verður ekki einn einasti þingmaður Hreyfingarinnar í salnum undir þessari umræðu vegna þess að auglýstur er sjávarútvegsfundur í Vestmannaeyjum hjá viðkomandi þingmönnum. Þetta sýnir hvað ríkisstjórnin teygir sig langt í þá átt að halda samninga við Hreyfinguna, það er talið óþarft að hv. viðkomandi þingmenn taki til máls eða haldi uppi rökum sínum í málinu og þau láta ríkisstjórnarflokkana um þetta.

Virðulegi forseti. Hún er orðin ansi leiðigjörn sú umræða að við í stjórnarandstöðunni höldum uppi málþófi úr ræðustól. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom hér áðan og taldi að við hefðum stundað málþóf í gær í IPA-styrkjamálinu. Ég vil hafna því og vísa því á bug. Ég talaði í minni fyrstu ræðu í 20 mínútur. Það vill þannig til að þingmenn eru 63 talsins og gefa verður hverjum einasta þingmanni svigrúm til að tala í þessu máli.

Hv. þm. Helgi Hjörvar er líka farinn að efast um að fulltrúalýðræði sé það sem við eigum að byggja okkar samfélag á og kallar eftir beinu lýðræði og aukinni þátttöku þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég fagna því og vil jafnframt upplýsa þingheim um að nú hefur tillaga frá mér verið til umfjöllunar í utanríkismálanefnd á þriðja ár, sem fjallar um að við eigum tafarlaust að setja ESB-málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort halda eigi áfram viðræðuferlinu eða ekki. Ég skora á hv. formann utanríkismálanefndar sem stendur í dyragættinni að taka málið tafarlaust á dagskrá nefndarinnar (Forseti hringir.) svo það geti komið til síðari umr. í þinginu og atkvæðagreiðslu.