140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Agi í ríkisfjármálum er lykilatriði í hagstjórn nú sem aldrei fyrr þegar við erum að koma okkur upp úr einhverjum mestu efnahagserfiðleikum sem þjóðin hefur ratað í. Ég vil í þessu efni vekja athygli á svari sem ég var að fá við fyrirspurn minni um forstöðumenn ríkisstofnana sem fara umfram heimildir í fjárlögum. Það er því miður og illu heilli, frú forseti, lenska að fara fram úr fjárlögum á meðal forstöðumanna ríkisstofnana og það er gert nokkurn veginn á að giska átölulaust af hálfu þeirra sem eiga að vera yfirmenn þeirra, ráðherrum í ráðuneytum sem eiga að hafa eftirlit og aðhald með forstöðumönnunum.

Á undanförnum árum hefur verið mjög áberandi á meðal margra stofnana ár eftir ár, jafnvel áratugum saman, að fara ítrekað fram úr fjárheimildum. Hver er ef til vill ástæðan fyrir því? Kannski sú að engan veginn er tekið á þeim málum og hef ég fyrir framan mig svör sem benda í þá veruna. Á árunum frá 1995 hafa tveir forstöðumenn ríkisstofnana verið áminntir í starfi, tveir á 17 árum. Á þessum 17 árum hafa fjórir forstöðumenn ríkisstofnana fengið tilsjónarmann með rekstri, fjórir á 17 árum. Á þessum 17 árum hafa tveir forstöðumenn ríkisstofnana verið látnir taka pokann sinn, verið vikið úr starfi.

Skyldi þetta vera í einhverju samræmi við það sem gengur og gerist úti á hinum almenna vinnumarkaði? Klárlega ekki. Í þessu efni búum við við tvö samfélög, verndaða forstöðumenn ríkisstarfsmanna og (Forseti hringir.) svo hins vegar almennan markað þar sem menn bera ábyrgð á gjörðum sínum.