140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fyrir yfirferðina. Það var ágætt að formaðurinn talaði hér til að rifja upp hvar málið er statt vegna þess að því var frestað um daginn.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þar sem hún fór yfir það í ræðu sinni að talið sé að tillögur stjórnlagaráðs séu að koma til þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt orðum þingmannsins. Hvernig er hægt að finna það út að tillögur stjórnlagaráðs séu að koma til þjóðaratkvæðagreiðslu miðað við þær spurningar sem þingmaðurinn las upp, því að þessar spurningar eru almenns eðlis, fimm spurningar sem eru teknar héðan og þaðan úr stefnuskrá flokkanna sem að tillögunni standa og eiga hreinlega ekkert sameiginlegt með tillögum stjórnlagaráðs? Hvers vegna er stjórnarmeirihlutinn með stuðningi Hreyfingarinnar að stunda þennan blekkingaleik? Það er búið að leggja tillögur stjórnlagaráðs til hliðar og þær á að setja inn í vinnu sex til sjö manna nefndarhóps sem nú á að taka til starfa. Hvernig er hægt að finna það út með þessum málflutningi að verði þessi tillaga samþykkt í þinginu sé þjóðin að greiða atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs þegar spurningarnar eru einungis fimm og snúa að allt öðru en skýrslan sagði til um?