140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert flókið í þessu máli en þetta sýnir fullkominn blekkingaleik ríkisstjórnarinnar í þessu umdeilda máli vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan á samkvæmt þessari tillögu að fara fram í október, en nú þegar hefur verið talað við sex eða sjö sérfræðinga sem eiga að taka tillögurnar til skoðunar og sú vinna kemur einungis til með að hafa í för með sér kostnað fyrir íslenska ríkið vegna þess að þessi nefnd á að starfa í sumar. Fari þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin segir nei, að það eigi ekki að nota þessar tillögur til grundvallar, er það ávísun upp á einn kostnaðarliðinn enn sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað til í þessu stjórnlagaráðsmáli öllu, allt frá því Hæstiréttur ógilti kosninguna á sínum tíma, og bætist þá ofan á hinn stóra þúsund milljón króna stabba sem þetta mál hefur nú þegar kostað hjá þessari vanhæfu ríkisstjórn.