140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa því yfir að ég get fyrir mitt leyti verið nokkuð ánægður með þá ákvörðun meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að fá hóp hæfra lögfræðinga til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs og lagfæra þær þannig að þær standist betur út frá lagatæknilegum forsendum, samkvæmt alþjóðasamningum og annað þess háttar.

Ég velti því annars vegar fyrir mér hvort hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir geti lýst því nánar hvaða hugmyndir eru uppi um verkefni þessara lögfræðinga og verksvið. Þá er ég að velta því fyrir mér meðal annars hversu víðtækt umboð þeirra verður, hvort þeir verði ráðnir til að fara mjög þröngum lagatæknilegum augum yfir einstaka kafla, eða hvort um víðtækari eða heildrænni skoðun verði að ræða.

Hins vegar vildi ég spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hvort það skjóti ekki svolítið skökku við að hafa hér í gangi tvö ferli eiginlega á sama tíma, annars vegar aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs og hins vegar vinnu sem felur í sér breytingar á tillögum stjórnlagaráðs. Auðvitað hlýtur markmiðið, þó að það sé sagt að um sé að ræða lagatæknilega yfirferð, að leiða til ýmiss konar breytinga á tillögunum.

Það er alla vega ljóst, miðað við þá málsmeðferð sem hér er lagt upp með, að það sem atkvæði verða greidd um í haust í þjóðaratkvæðagreiðslu, nái þessu tillaga fram að ganga, verða ekki endanlegar tillögur, heldur tillögur sem eru á einhvers konar vinnslustigi og eiga augljóslega eftir að breytast.