140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur mótmæla því að það sé eitthvað að þessu. Ég vil líka taka það fram að í breytingartillögunni sem lögð var fram í lok mars kemur fram að á kjörseðli eigi að standa skýringartexti.

Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðferð þingsins. Þetta er mjög einfalt. Það er hugmyndin, það er grundvöllurinn, það er hugmyndafræðin í tillögum stjórnlagaráðs sem verið er að bera undir þjóðina. Það er ekki verið að bera einstakar lagagreinar þar undir, það hefur alltaf verið alveg ljóst.

Við hv. þingmaður erum ósammála um þetta í nokkrum dráttum. Samt vona ég nú að okkur takist að nálgast hvort annað eitthvað svolítið og hlakka til umræðunnar sem verður hér í vetur þegar við förum að ræða frumvarp til stjórnarskrár sem lagt verður fyrir Alþingi.