140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt mikið upp úr því þegar ég hef átt samtöl við þá einstaklinga sem tekið hafa að sér það verkefni að lesa yfir og fara yfir tillögur stjórnlagaráðsins út frá lagatæknilegu sjónarmiði — sem mér finnst nú leiðinlegt orðalag en það er orðalag sem margir skilja — að ekki er um að ræða nefnd. Þetta er ekki enn ein nefndin ef ég má komast þannig að orði. Þetta eru lögfræðingar sem eru mjög hæfir hver á sínu sviði og þau munu skipta með sér tillögunum og fara yfir þær. Þau hafa líka verið beðin um að gera drög að greinargerð sem mundi fylgja því frumvarpi sem lagt yrði fram.

Hvort fleiri spurningar bætist við, því get ég ekki svarað. Það verður ekki gert af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en fyrir liggur fullt af spurningum. Ég ætla ekki að svara fyrir félaga mína. Ég ætla að huga að því fram eftir kvöldi, ætli það verði ekki í kvöld, rétt fyrir klukkan 10, sem við greiðum atkvæði hér. En ég mun ekki bera fram fleiri spurningar.