140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fagna því að fyrir fram er ekki búið að hafna neinum tillögum sem hér munu koma fram. Ég vona svo sannarlega að eitthvað geti nú bæst við ef þessi leið verður farin, sem ég, svo að ég sé alveg hreinskilinn, vona reyndar að verði ekki. Mér finnst við vera komin býsna langt út í horn með þetta mál og hef í fyrri ræðum reynt að tala fyrir því að allir hér inni setjist niður og reyni að koma einhverju lagi á allt ferlið þannig að menn séu meira í sátt frekar en hitt.

Ég skil hv. þingmann þannig að þessi hópur sérfræðinga eigi að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs, laga þær ef þær uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til lagagreina og greina í stjórnarskrá. Í raun bara að fínpússa það sem kemur fram, í sjálfu sér ekki að segja að þetta sé ómögulegt eða ónýtt, þetta passi ekki eða eitthvað svoleiðis, heldur bara fínpússa þær tillögur sem fram eru komnar og skila síðan einhvers konar greinargerð með. Þannig skilst mér að þessi (Forseti hringir.) hópur eigi að vinna.