140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við þetta mál er að margir koma að því og þeir sem koma sem sérfræðingar veifa öðrum tillögum. Sérfræðingarnir segja: Ég er á móti þessum tillögum, ég vil einhverjar aðrar tillögur. En þetta eru tillögurnar sem við erum að fjalla um.

Ég get sagt frá því — nú verð ég að tala mjög hratt — að það var skoðun Lagastofnunar að leggjast ætti í alls konar rannsóknir á hinu og þessu og að það mundi taka ár. Það voru 25 manns sem sátu í fjóra mánuði eða meira og unnu þetta frumvarp, fólk úr öllum þjóðfélagsstéttum. Það er alveg ljóst að við erum að bera fram tillögur þessa fólks. Nú erum við að gera lögfræðingum til hæfis sem finnst að þeir eigi bara að sjá um þetta allt einir. Við erum búin að fá mjög hæft fólk til að gera þetta. Ég er mjög fegin því og mjög þakklát. Mér finnst að við eigum öll að líta á þetta aðeins (Forseti hringir.) bjartari augum en sjálfstæðismenn hafa gert. Hins vegar — ég ætla að stela hérna tíma — ber ég fulla virðingu fyrir málflutningi sjálfstæðismanna (Forseti hringir.) á þingi. Þeir eru bara á öðru máli en ég. (Gripið fram í.)