140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:20]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt mergurinn málsins að Lagastofnun taldi að fara þyrfti í rannsóknir á málinu áður en hún gæti lokið störfum.

Þegar við erum að tala um að breyta stjórnarskránni, finnst mönnum óeðlilegt að það taki tíma? Finnst mönnum óeðlilegt að fara þurfi í stjórnskipulegar rannsóknir? Það hefur verið gagnrýnt oft á vettvangi lögfræðinnar að slíkar rannsóknir skorti. Ég mundi vera stolt af því að standa fyrir því á Alþingi að í slíka rannsókn yrði farið. Ég yrði stolt af því ef það væri gert.

Ég vil líka benda á að þegar nágrannalönd okkar breyta stjórnarskrám sínum þá gefa menn sér tíma til þess og reyna að ná um það samstöðu. Ég hef ekki enn fengið svör við því af hverju liggur svona óskaplega mikið á að klára þetta mál.

Þegar hér er talað um að menn hafi bara viljað tala um einhverjar aðrar tillögur eða aðrar hugmyndir, af hverju skyldi það vera? Það er af því að þessar tillögur eru ófullburða. Ég hef margoft sagt það í þessum ræðustól og einnig í nefnd að að sjálfsögðu séu þær liður í breytingu á stjórnarskránni. Þær eru liður í breytingu á stjórnarskrá alveg eins og aðrar tillögur sem hafa verið lagðar fram, önnur vinna sem farið hefur verið í hér þverpólitískt til dæmis og líka út um allt þjóðfélag. Allt er það liður í því að þróa stjórnarskrárumræðuna áfram.

Vilji meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að taka bara þennan eina þátt, sem eru tillögur stjórnlagaráðs, þegar talað er um breytingu á stjórnarskrá og að ekkert annað megi ræða. Ég er ekki sammála þeirri nálgun og mér finnst enn vera tækifæri til að hverfa frá þessu vinnulagi og gera þetta rétt. Það er enn tækifæri til að gera það. Ég skora á hv. þingmann að líta til þess.