140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var óheppilegt að ekki skyldi fást skýring á því hvað átt væri við með því að til stæði að greiða atkvæði um hugmyndafræði stjórnarskrárbreytinganna en ekki tillögurnar sjálfar. Ég ætlaði nefnilega að spyrja hv. þingmann nánar út í það ef einhverjar skýringar hefðu fengist í fyrra andsvari en þær komu ekki. Í staðinn vil ég gjarnan spyrja hv. þm. Ólöfu Nordal hvort hún geti tekið undir það með mér, því að bæði erum við sammála um að vinnubrögðin í þessu máli hafi verið algjörlega óviðunandi, að mun vænlegra væri til að ná þeirri sátt sem þarf að ríkja um þetta mál og mun líklegra til að skila árangri ef menn litu til þeirrar vinnu sem Jón Kristjánsson leiddi um alllangt skeið og var kominn vel á veg og miðaði alltaf að því að ná sem víðtækastri sátt um breytingar vegna þess að stjórnarskrá væri eitthvað sem allir (Forseti hringir.) þyrftu að starfa eftir.