140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir ræðuna. Það kom fram í máli flutningsmanns þessa máls, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að fyrir nefndina hefðu komið lögfræðingar sem veifuðu sífellt öðrum tillögum en þeim sem voru til umræðu. Ég vil leiðrétta það því að fyrir nefndina komu einnig lögfræðingar sem unnu með stjórnlagaráði og tjáðu nefndinni það að ekki hefði verið farið eftir ráðgjöf þeirra sem sýnir hve málið er byggt á veikum grunni.

Ég vil einnig minna á að hefði sú leið verið farin sem var æskilegust, að fá Lagastofnun Háskóla Íslands til að lesa þetta plagg yfir, væri sú vinna komin níu mánuði á leið af þeim 12 mánuðum sem Lagastofnun taldi að hún þyrfti til verksins. Nei, ríkisstjórnin fór fram með þetta mál í ósátt, fann upp nýja og nýja tafaleiki, og því spyr ég: Er ekki einkennilegt að fara af stað með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október þegar (Forseti hringir.) fyrir liggur að búið er að skipa nefnd til að fara yfir skýrsluna í sumar? Er það ekki peningasóun?