140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú afstaða mín að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla sé óskynsamleg liggur alveg fyrir og þar með er mín skoðun einnig sú að þeir fjármunir sem í hana eru settir séu ekki til góðs, ég vil orða það þannig.

Ég vil ítreka hér að það er langlíklegast, miðað við að það verða kosningar á vori komanda, að umræða um breytingar á stjórnarskránni muni fara fram í þinginu næsta vetur, að þá muni hin efnislega umræða hefjast, a.m.k. vona ég að hún hefjist þá.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst miklu nær að Alþingi hefji þá umræðu hér og takist á um efni málsins áður en farið er í einhverja óskilgreinda þjóðaratkvæðagreiðslu sem, eins og þm. hv. Vigdís Hauksdóttir benti réttilega á, við höfum ekki hugmynd um hvað við eigum að gera við niðurstöðurnar úr. Við vitum ekkert hvernig þátttakan verður, það er eitthvað sem verður bara að koma í ljós ef af þessu verður.

En meginatriðið (Forseti hringir.) er þetta, virðulegi forseti, það er verið að fara alveg öfugt í þetta mál.