140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eltast við þann útúrsnúning sem hér kemur fram um að við séum með einhverja aðra afstöðu þegar kemur að þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Það kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar, míns og hv. þm. Birgis Ármannssonar, að við erum á móti því hvernig málið er lagt upp. Við teljum það ekki hæft í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við töldum það ekki fyrir páskana þegar átti að tengja þetta við forsetakosningarnar og ég tel það heldur ekki núna. Þetta er grundvallarafstaða og hún er nákvæmlega eins og hún var fyrir páska. Það hefur ekkert breyst í þessu máli nema að nú hefur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákveðið að fá sérfræðinga til að fara yfir tillögurnar. Og þá verð ég að segja að það er óskiljanlegt, og það hefur breyst, að á sama tíma og sú vinna á að fara fram eigi líka að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar óbreyttar.

Það getur vel verið að hv. þingmaður hafi dýpri skilning á hlutunum en ég en mér finnst algjörlega órökrétt að gera þetta svona. Það er miklu nær að bíða eftir þeirri niðurstöðu, klára þá (Forseti hringir.) vinnu og hefja efnislega umræðu um þetta mál. Svo skulum við kanna hvernig við leitum til þjóðarinnar með það, enda er það skylt samkvæmt gildandi stjórnarskrá.