140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við hefjum nú umræðu að nýju í miðju kafi sem er auðvitað svolítið sérstakt. Það er liðinn meira en mánuður frá því að við ræddum þetta mál hér síðast, einn og hálfur mánuður. Skýringin á því er auðvitað sú að frá því að umræðunni var frestað 29. mars leið mánuður þangað til meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kynnti hvaða hugmyndir hann hefði varðandi framhald málsins. Ég velti því þá fyrir mér hvort sá tími hafi verið vel nýttur miðað við afraksturinn.

Það er rétt, vegna orðaskipta hv. þm. Lúðvíks Geirssonar og hv. þm. Ólafar Nordal hér áðan, að geta þess að í ítarlegu nefndaráliti sem við hv. þm. Ólöf Nordal lögðum fram áður en síðari umr. hófst í lok mars tilgreinum við mörg atriði sem gera það að verkum að við töldum okkur ekki geta stutt þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Eitt af þeim atriðum sem við nefnum er það að óheppilegt sé að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu á sama tíma og forsetakosningar og við færum fyrir því ýmis rök. Fyrir þetta vorum við skömmuð mikið á sínum tíma, það væri svo kjörið að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum, en ég hygg nú að þegar nær dregur forsetakosningum muni menn sjá að það hefði verið mikið óráð að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu af þessu tagi á sama tíma og forsetakosningar færu fram. Þetta vandamál er úr sögunni en eftir standa önnur gagnrýnisatriði sem við lögðum áherslu á í nefndaráliti okkar. Þar vegur auðvitað þyngst það mat okkar að óeðlilegt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur sem ekki eru komnar í endanlega mynd, endanlegan búning, og augljóst er og viðurkennt að eigi eftir að breytast, þó að menn viti ekki á þessari stundu hversu mikið þær komi til með að breytast eða hversu miklar breytingar verði gerðar á tillögunum eftir yfirferð þeirra lögfræðinga sem hér var vísað til fyrr í umræðunni. Menn vita það ekki á þessari stundu en það er alla vega ljóst að þær eiga eftir að breytast. Þannig að það er verið að leggja hér til að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu í miðjum klíðum meðan vinna sem getur haft töluvert mikil áhrif á útkomuna á sér enn stað.

Ég bið hv. þingmenn að velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegra og heppilegra að láta fyrst fara fram þá vinnu sem vísað er til hér, tæknilegu vinnu, lagatæknilegu vinnu, lögfræðilegan yfirlestur eða hvað menn vilja kalla það, ég vona að það verði eitthvað meira en bara einfaldur prófarkalestur. Hefði ekki verið eðlilegra að sú vinna yrði unnin og henni væri lokið áður en farið er í þjóðaratkvæðagreiðsluna? Því nú er staðan sú, nái hugmyndir meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fram að ganga, að efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu í haust um tillögur sem allar eru settar fram með stórum fyrirvara. Sá stóri fyrirvari er svohljóðandi: Jú, við viljum gjarnan heyra skoðun ykkar á þessum tillögum en, fyrirgefið, þið athugið að þetta á nú kannski eftir að breytast, kannski mikið, kannski lítið, við vitum það ekki á þessari stundu. — Það er veruleikinn.

Veruleikinn er líka sá af því að menn tala af nokkurri léttúð um lagatæknilegar breytingar að þær geta haft veruleg áhrif á túlkun þeirra ákvæða sem um ræðir. Orðalagsbreytingar í lagaákvæðum og ekki síst stjórnarskrárákvæðum geta haft veruleg áhrif á það hver túlkunin verður. Í mörgum tilvikum hafa sérfræðingar einmitt spurt, eftir að hafa séð tillögur stjórnlagaráðs: Hvað á stjórnlagaráð einfaldlega við? Hvert er stjórnlagaráð að fara með þessum tillögum? Það verður svolítið erfitt fyrir þessa ágætu sérfræðinga að ætla sér núna eftir á að skrifa einhverja merkingu inn í tillögur stjórnlagaráðs eins og trúlega verður raunin í einhverjum tilvikum.

Síðan er annað atriði sem við gagnrýnum líka harðlega, það er val spurninga og framsetning þeirra og annað þess háttar. Ég verð að koma að því í ræðum síðar í dag og eins að breytingartillögum sem fluttar hafa verið. En ég vil þó nefna á þessu stigi, vegna orða hv. þm. Lúðvíks Geirssonar (Forseti hringir.) hér áðan, að auðvitað eru þær breytingartillögur lagðar fram sem nokkurs konar varatillögur. Aðalkrafa okkar er að málið verði fellt en ef meiri hlutinn ætlar að samþykkja þetta mál teljum við rétt að bæta þessum spurningum við.