140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Þetta er afar einkennilegt að við skulum vera komin í þá stöðu hér að búið sé að skipa sérfræðingahóp sem á að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs í sumar og skila þeim tillögum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar helst fyrir 1. september og síðan á að fara í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október. Þetta plagg er líka mjög villandi eins og það er sett upp hér í annarri umferð. Fyrsta breytingartillagan var nú svo ruglingsleg og tillögur að spurningum að ég held að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi ekki skilið það sjálfur, en gerð var breytingartillaga við allar spurningarnar sem leggja átti fyrir þjóðina. Hafi það raunverulega verið vilji meiri hlutans að fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu hefði eingöngu átt að spyrja um efni 1. töluliðar, um hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að liggja til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Þetta virðist ekki vera nógu mikið kjöt á beinunum fyrir meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þannig að þessi umferð virðist vera notuð til að bæta við fimm spurningum í viðbót, töluliðir 2–6, tvö kosningamál Vinstri grænna, tvö kosningamál Samfylkingarinnar og svo fékk Hreyfingin að vera með eina spurningu líka. Það er svo mikil blekking að leggja þessar spurningar svona fram vegna þess að þær eru allar almenns eðlis og snerta nokkuð umdeild mál í þjóðfélaginu.

Ég spyr þingmanninn: Hvað finnst honum um þetta vinnulag? Er þetta enn einn tafaleikur meiri hlutans út úr þessu vandræðamáli sem hæstv. forsætisráðherra hefur komið stjórnarskrárbreytingunum í? Hefði ekki verið nær að taka núgildandi stjórnarskrá og laga hana (Forseti hringir.) og setja þær tillögur sem voru nothæfar frá stjórnlagaráði sem breytingartillögu við núgildandi stjórnarskrá?