140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að eðlilegur byrjunarpunktur hefði einmitt verið sá að fara yfir núgildandi stjórnarskrá, meta hvaða þættir í henni hefðu reynst vel og hverjir ekki. Það hefði að mínu mati verið mjög mikilvæg fræðileg greiningarvinna sem hefði þurft að fara fram. Í kjölfar þess hefði átt að vinna breytingartillögur og mikilvægt að vinna þær í sem víðtækastri sátt, vinna breytingartillögur á þeim atriðum sem nauðsynlegt er að breyta. Mér finnst svona almennt, og menn geta kannski skammað mig fyrir að vera íhaldsmaður, en mér finnst yfirleitt ástæðulaust að breyta því sem hefur reynst ágætlega. Ef við horfum á ákvæði stjórnarskrárinnar er ég þeirrar skoðunar að þau hafi mörg hver reynst afar vel. Við getum sagt að sum séu frekar hlutlaus eða hafi alla vega ekki verið til vandræða. Svo eru ákveðnir kaflar og ákveðin ákvæði sem þarfnast endurskoðunar. Ég held að vinnan hefði orðið miklu skilvirkari og markvissari ef sjónum hefði verið beint að þeim þáttum en ekki verið sett það markmið að endurskrifa alla stjórnarskrána frá A til Ö.

Það er rétt að rifja upp að núgildandi stjórnarskrá er um það bil 80 greinar. Þær eru meira og minna allar endurskrifaðar í tillögum stjórnlagaráðs og bætt við 25 eða 26 nýjum. Um er að ræða verulegar breytingar og miklu meiri breytingar en nokkur þörf, nokkur reynslurök knýja á um. Það er frekar óskynsamlegt vinnulag.

Það er svo aftur annað mál að fyrst við erum stödd á þessum stað í tilverunni og stjórnlagaráð er búið að eiga sína fundi og ræða málin fram og til baka þá eigum við auðvitað að nýta það úr tillögum þess sem gott er en vera um leið óhrædd að hafna því sem ekki er jafngott. Við eigum sem þjóðþing, sem hefur valdið til að samþykkja stjórnarskipunarlög eins og við gerum samkvæmt núgildandi stjórnarskrá, (Forseti hringir.) að vera óhrædd við að taka það sem gott er úr tillögum sem koma annars staðar frá en um leið óhrædd við að hafna því sem við erum ekki sátt við.