140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem dæmi má nefna að ég gagnrýndi það mjög þegar stjórnlagaráð skilaði tillögum sínum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að greinargerðin með þeirri skýrslu var í engum takti við þær lagagreinar sem var búið að semja. Ég fékk mikla gagnrýni fyrir það og árás meðal annars frá spunameisturum Samfylkingarinnar fyrir að hafa ekki lesið málið nógu vel. Nú liggur fyrir að það á að vera eitt meginverk þeirrar nefndar sem búið er að skipa að fara í gegnum greinargerðina, hreinsa úr henni úrelt lög og tilvitnanir og raunverulega endurskrifa greinargerðina upp á nýtt. Auðvitað er vinna stjórnlagaráðs ekki hafin yfir allan vafa frekar en önnur mannanna verk. Svona er staðan.

Nú hefur sem betur fer verið hlustað á okkur í minni hlutanum. Fengnir eru sérfræðingar til að lesa yfir hvort þessar tillögur standist stjórnarskrá og önnur lög og alþjóðasamninga lagalega séð. Loksins var hægt að opna augu meiri hlutans fyrir því að það yrði gert og hef ég fagnað því mjög í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Þeim mun óskiljanlegra er það að meiri hlutinn skuli fara fram með þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í haust vegna þess að það er ekki um neitt að kjósa, eins og ég fór yfir í andsvari áðan eru þetta ekki einu sinni endanlegar tillögur eftir yfirlestur nefndarinnar í sumar sem kosið er um.

Í framhaldi af þessu langar mig einnig til að taka undir gagnrýni hv. þm. Birgis Ármannssonar varðandi núgildandi stjórnarskrá og að henni skuli farið. Það var komin mjög góð dómaframkvæmd á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en þá tekur stjórnlagaráð sig til og skrifar nýjan mannréttindakafla svo dæmi sé tekið.

Eru þetta ekki frekar einkennileg vinnubrögð að mati þingmannsins? Hvað er hægt að gera í þinginu til að reyna að hindra það að (Forseti hringir.) þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram því að hún er algjörlega tilgangslaus?