140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns um hvað sé hægt að gera í þinginu í þessu máli þá held ég að það sé í raun það sama og við reynum að gera, stjórnarandstæðingar, í mörgum málum, þ.e. að reyna að opna augu annarra þingmanna fyrir því að þeir séu hugsanlega á villigötum. Ég held að við verðum að nota ræðutíma okkar og orku til þess að útskýra hvaða raunverulegu gagnrýnisatriði við viljum leggja áherslu á. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við drögum fram meðal annars það sem hv. þingmaður nefnir að þjóðaratkvæðagreiðsla er frekar ómarkviss þegar ekki er um að ræða endanlegar tillögur. Sú hætta eða möguleiki skulum við segja er alltaf fyrir hendi að sú lögfræðilega yfirferð sem nú er boðuð á tillögum stjórnlagaráðs leiði til breytinga sem geta haft töluvert mikil efnisleg áhrif.

Það er stundum sagt í öðru samhengi að skrattinn búi í smáatriðunum og það á ekki síst við um lagatexta og breytingar sem sumum kunna að þykja veigalitlar á yfirborðinu, þær felast jafnvel í minni háttar orðalagsbreytingum eða lagfæringum af því tagi að eitthvað er fellt burt eða öðru bætt við eða lagfært þar sem tvö ákvæði stangast á og eitthvað svoleiðis. Það getur haft töluvert mikil áhrif þegar málin eru skoðuð í grunninn. Stjórnarskrá er alls ekki bara einhvers konar stefnuyfirlýsing eða einhver yfirlýsing eins og menn eru að samþykkja á landsfundum eða slíkum samkomum, þarna er um að ræða grundvallarlöggjöf sem önnur löggjöf í landinu byggir á. Henni á og má beita fyrir dómstólum og dómstólar verða að taka tillit til hennar við túlkun þannig að (Forseti hringir.) jafnvel litlar breytingar á stjórnarskrártexta geta haft miklar afleiðingar. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir tala, að því er mér finnst, oft af léttúð um einhvers konar lagatæknilegan yfirlestur.