140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég hyggst geyma það að spyrja þingmanninn út í einstakar greinar, því að ef ég hef skilið þingmanninn rétt mun hann fara yfir þær, a.m.k. einhverjar breytingartillögur, hér síðar. Ýmsar greinar í tillögum stjórnlagaráðs þarfnast í rauninni miklu betri útskýringa en þar koma fram varðandi tilgang og annað.

Hv. þingmaður talaði um að eflaust væri hægt að nýta einhverjar tillögur. Ég tek ég undir með honum að þær má finna. Þetta er hins vegar umfangsmikið plagg og ég held að stjórnlagaráð hafi kannski gengið of langt í tillögugerð, ég ætla bara að orða það þannig.

Ferlið þekkjum við. Við höfum, mörg, gagnrýnt ferlið sem tók við eftir kosningu til stjórnlagaþings. Nú sjáum við tillögu um að kjósa í október eða gera skoðanakönnun meðal þjóðarinnar sem má kosta, ef ég skil rétt, 250 milljónir eða eitthvað þar um bil. Þetta eru miklir peningar sem mætti að sjálfsögðu nýta í eitthvað þarfara, held ég, vegna þess að það plagg sem á að kjósa um er langt í frá einhvers konar sátt ef ég má orða það svo, það er alla vega ekki hafið yfir gagnrýni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í skilning minn á þeirri nefnd sem á að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs. Ég skil málið þannig að nefndin eigi að taka tillögurnar og laga þær, gera þær þannig að þær uppfylli kröfur um framsetningu og annað, en ekki gera efnislegar athugasemdir líkt og komið hafa fram hjá aðilum sem hafa sent inn (Forseti hringir.) athugasemdir.