140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:24]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að geta mér til um það sem hv. þingmaður ætlaði að spyrja og væntanlega var spurningin sú hvort hér væri um að ræða spurningar sem ættu grunn sinn frekar í stefnuskrám þessara flokka en því að verið væri að leita eftir þeim álitamálum sem snúa að stjórnarskránni.

Það verður í sjálfu sér auðvelt fyrir þá hv. þingmenn sem eru í stjórnarliðinu að afsanna allar slíkar kenningar. Hér hafa komið fram mjög málefnalegar tillögur um aðrar spurningar sem snúa að stjórnarskránni, m.a. um valdheimildir forsetans og fleiri atriði sem gera það að verkum að það ætti að vera auðvelt fyrir stjórnarþingmenn að samþykkja það ef á annað borð á að samþykkja þessa tillögu. Það kæmi mér mjög á óvart ef til dæmis spurningin um rétt forsetans til að vísa lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði ekki borin upp úr því að á annað borð á að fara þessa leið. Það væri alveg furðulegt og það mundi auðvitað benda til þess að það sé eitthvað til í því sem hv. þingmaður hefur verið að nefna hér og ætlaði, að ég tel, að spyrja um, að það sé frekar pólitískt sjónarmið á bak við (Forseti hringir.) þessar spurningar en að akkúrat sé verið að leita eftir þeim þáttum sem skipta máli hvað varðar stjórnarskrána.