140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað ætti bara að duga að spyrja þeirrar spurningar hvort þjóðin segi já eða nei við því að við þær breytingar sem á að ræða hér í þinginu um stjórnarskrána verði lagðar til grundvallar þær hugmyndir sem komu fram í stjórnlagaráðinu — já eða nei við því. Ég held einmitt að hinar spurningarnar sem lagðar eru fram beri þess merki að það sé einhvers konar samkomulag á milli stjórnarflokkanna og síðan stuðningsflokks ríkisstjórnarinnar um hvaða spurningar fara þarna inn. (Gripið fram í.) Stuðningshópur, kallar einn hv. þingmaður fram í. (Gripið fram í.) Ég held að við munum sjá á þessu hvernig farið verður hér með þær breytingartillögur sem hafa komið fram. Það eru settar fram málefnalegar hugmyndir um atriði sem skipta mjög miklu máli hvað varðar stjórnarskrána og snúa einmitt að þeim atriðum sem hafa verið mjög til umfjöllunar og eru deilumál, eins og til dæmis staða forsetans. (Forseti hringir.) Ef slíkar tillögur verða felldar stendur auðvitað eftir það sem hv. þingmaður hefur hér bent á.