140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði að það væri spurning um kurteisi í garð almennings, ef menn ætluðu að ráðast í þessa atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun, að menn spyrðu skiljanlegra spurninga, spurninga sem veittu okkur gagnlegar upplýsingar, að spurt væri um eitthvað sem fólk gæti áttað sig á og tekið afstöðu til. Ég er alveg sammála því mati, að sjálfsögðu. En getur ekki verið að þetta mál snúist ekkert um raunverulegan áhuga á því að heyra hvað fólki finnst um þessi mál? Getur ekki verið að þetta snúist fyrst og fremst um sýndarmennsku, um að fá tækifæri til að nota orð eins og lýðræði og halda því fram að verið sé að sækjast eftir eða biðja um skoðanir almennings þegar þetta snýst í rauninni alls ekki um það? Ef menn hefðu raunverulegan áhuga á því að heyra hvað almenningi finnst mundu menn spyrja spurninga sem veittu einhverjar upplýsingar.