140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega má færa fyrir því rök, eins og hv. þingmaður gerir ágætlega, að það megi finna samsvaranir í umræðu um hugtök þegar litið er til sögunnar. Það er alveg rétt að til dæmis í stjórnarskrám ríkja eins og Sovétríkjanna var mikið af mjög jákvæðum og ef ég má leyfa mér að segja fallegum hugtökum en sem voru algjörlega merkingarlaus, höfðu ekkert að segja, veittu enga vernd. Stjórnarskrá slíkra ríkja hafði raunverulega enga merkingu. Það er einmitt það sem við erum að passa og það er það sem er svo verðmætt í okkar samfélagi, að stjórnarskráin sem við setjum hafi merkingu, hún veiti okkur vernd, hún veiti íbúum landsins vernd, m.a. gegn misbeitingu ríkisvaldsins og kannski einkum og sér í lagi gagnvart því, og þá skiptir öllu máli að hlutirnir séu settir þannig fram að þeir séu skýrir, þeir séu merkingarbærir. Ég geri mér grein fyrir því, frú forseti, að það á eftir að fara með þetta mál og ræða það efnislega síðar í vetur en hér er um að ræða spurningarnar sem á að senda til þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt að þær spurningar séu skýrar hvað varðar efni þeirra og afleiðingar.