140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hugsum hlutina með mismunandi heilabúi, ég og hv. þingmaður. Mér finnst þetta mjög skýrt og get ekki sagt annað en það.

Ég ætla að reyna að koma aðeins inn á spurninguna um þjóðareign, sem hann nefndi líka. Í greinargerð með tillögum stjórnlagaráðs er vitnað mjög skýrt til þess að þarna sé hugtakið notað í sömu merkingu og til dæmis var í tillögum stjórnarskrárnefndar sem starfaði 1978–1983. Sótt er í Þingvallalögin og þar segir:

„Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“

Það er nákvæmlega þetta sem átt er við með þjóðareign. Ég segi fyrir mig, og er þar á öðru máli en hv. þingmaður, að mér finnst þetta miklu skýrara og betra orð en opinber eign vegna þess að ég skil opinbera eign á þann veg að ríkisvaldið geti ráðskast með það. Þjóðareign getur ríkisvaldið ekki ráðskast með.