140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér nokkrum atriðum og þakka þingmanninum fyrir hans ræðu. Eitt af því sem þingmaðurinn velti upp var hverjar þessar grundvallarspurningar væru og hann fór ágætlega í gegnum ýmsar vangaveltur varðandi orðalag og ýmislegt í þessum tillögum. Í tillögunni sem meiri hlutinn leggur fram er spurt um jöfnun atkvæða kjósenda. Það er sem sagt túlkað á þann veg að það sé grundvallarspurning að spyrja hvort jafna eigi atkvæði kjósenda að fullu ef ég skil spurninguna rétt.

Má þá ekki spyrja annarrar grundvallarspurningar sem er ekki síður mikilvæg. Má þá ekki spyrja að því líka hvort þjóðin telji að jafna eigi dreifingu útgjalda ríkisins, þ.e. að allir njóti jafnt af því sem ríkið gefur?