140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:39]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi spurning hv. þingmanns sýnir í hvaða ógöngur menn eru lentir í þessum spurningum. Spurning þingmannsins er efnislega vel rökstudd og ekkert síður en margar þær spurningar sem nú þegar er búið að ákveða að setja í þetta skjal. Ég bendi til dæmis aftur á þær spurningar sem hv. þm. Ólöf Nordal og Birgir Ármannsson hafa lagt til varðandi stöðu forsetans og möguleika hans á að senda niðurstöðu þingsins í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað varðar spurningu um dreifingu útgjalda þá er ástæða til að ræða þann þátt og samspil hans við vægi atkvæða. Við gætum rætt lengi um það hvað við sæjum fyrir okkur í þeim efnum og um ástæðuna fyrir því að við höfum haft það þannig hér á Íslandi að vægi atkvæða sé mismunandi. Það er ekki að ástæðulausu. Þróunin hefur í seinni tíð verið í þá átt að draga úr mismuninum á því vægi en aftur á móti eru rök fyrir því að við höfum haft fyrirkomulagið með þessum hætti og höfum enn.