140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki svo flókið að rökstyðja þessar pælingar mínar þegar staðreyndin er sú að tvær af hverjum þremur krónum sem verða til á landsbyggðinni verða eftir á höfuðborgarsvæðinu. Við hljótum að spyrja hvort ekki sé rétt að jafna það þá með einhverjum hætti nema hægt sé að tengja þetta saman og segja: Jú, jú, við skulum bara hafa það þannig áfram að landsbyggðin kosti svo og svo mikið af útgjöldum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu en að sama skapi sé þá rétt að tveir þriðju hlutar þingmanna komi af landsbyggðinni til að gæta hagsmuna þessa hóps sem leggur svo mikið af mörkum.

Þetta eru bara vangaveltur sem verður að fara út í ef menn ætla að fara af stað í þessa umræðu. Mér finnst þar af leiðandi eðlilegt að fram komi spurning í þessari skoðanakönnun þar sem þessir hlutir eru kannaðir fyrst farið er að opna á þessa umræðu og kanna hug þeirra sem munu taka þátt í þessu til atkvæðavægis.