140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni kærlega fyrir ræðu hans. Hann fór aðeins yfir tilurð þessarar skýrslu og hvernig ólöglega kjörið stjórnlagaþing varð að hópi manna sem kosnir voru af Alþingi. Það er gott að fara yfir það, sérstaklega í ljósi þess að alltaf er talað um að með þessum kosningum eigi að fá fram þjóðarviljann og það sé stjórnlagaráðið eitt sem viti hver hann er.

Fram hafa komið þær hugmyndir að ekki megi hrófla við neinu í þessu plaggi frá stjórnlagaráði. Ef hróflað væri við einhverju væri þar með búið að breyta tillögum ráðsins, eins og það hafi ekki verið ætlan stjórnlagaráðs að Alþingi hefði fingurna í þessu. Annað væri náttúrlega klárt brot á stjórnarskrá. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn: Hefði ekki verið réttast að senda plaggið óbreytt í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar til að þetta væri skýrt? Þá lægju ekki til grundvallar þær villandi og pólitísku spurningar sem hér koma fram.