140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi spurningu eitt. Eins og ég kom inn á áðan er vandinn við hana að hugtökin eru óskýr, á sama hátt og menn hafa bent á í sambandi við ýmsa aðra þætti. Það skiptir auðvitað öllu máli þegar við fjöllum um stjórnarskrána að hugtakanotkunin sé algerlega skýr. Þegar sagt er í spurningunni að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar, vitum við ekki nákvæmlega hvað það þýðir. Það er auðvitað vandinn sem við glímum við. Þrátt fyrir að þessi tillaga sé taka tvö eru spurningarnar enn þá algerlega óskýrar.

Síðan getum við velt öðru fyrir okkur. Segjum sem svo að þjóðin segi já við spurningunni um hvort það eigi að vera þjóðkirkja á Íslandi. Það mundi væntanlega hafa efnisleg áhrif á þær tillögur sem þingið skilar frá sér og þá ekki alveg í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs. Segjum líka að þjóðin hafni því af einhverjum ástæðum að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign. Hver er þá staða þingsins? Á þingið að fara eftir tillögum stjórnlagaráðs (Forseti hringir.) og almennum vilja í þinginu til að reyna að nálgast þetta viðfangsefni, eða hvernig á að bregðast við?