140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta endurspeglar klárlega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Með því að leggja svona mikla áherslu á þetta tiltekna þingmál er ríkisstjórnin í raun að segja: Þetta er það sem við teljum svo gríðarlega mikilvægt að gera. Vissulega er allt sem lýtur okkar stjórnarskrá gríðarlega mikilvægt. Ég tel reyndar að það hafi verið röng nálgun að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Ég tel að stjórnarskráin sé eitt af því fáa sem hefur staðist vel, til dæmis í þeim hremmingum sem við höfum gengið í gegnum.

En maður sér auðvitað líka hinar pólitísku aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. Ríkisstjórnin er í rauninni búin að viðurkenna að hún sé minnihlutastjórn. Hún hefur ákveðið að ganga núna til samninga við Hreyfinguna, í atvinnuviðtölum eins og það var nefnt í gær. Niðurstaðan er sú að Hreyfingin leggur mikla áherslu á að ljúka þessu máli og ríkisstjórnin verður þá auðvitað að sýna lit og gerir það með þessum hætti.