140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er að sjálfsögðu sammála þessu mati hv. þingmanns. Það blasir í rauninni við að ríkisstjórnin hefur sett þetta mál á dagskrá og leggur svona mikla áherslu á það vegna þess að það er krafa Hreyfingarinnar, ella mun hún ekki verja ríkisstjórnina vantrausti, eða hótar því að minnsta kosti.

Svo er það hitt sem ég ræddi áðan við hv. þm. Illuga Gunnarsson, að menn sjá hér tækifæri til að láta orðræðuna snúast um fögur fyrirheit og fallega frasa í stað þess að hún snúist um þá stöðu sem raunverulega er uppi í samfélaginu.

Ég velti fyrir mér hvort þriðja ástæðan geti líka verið sú að menn vilji fá ákveðna niðurstöðu út úr þessu, þeir telji sig vita hver niðurstaðan verður, hvar meiri hlutinn muni liggja í svari við þessum spurningum og ætli í framhaldinu (Forseti hringir.) að koma með sína eigin tillögu að stjórnarskrá. Þá munu þeir nota þessa þjóðaratkvæðagreiðslu til að reyna að rökstyðja að þeir séu að (Forseti hringir.) tala máli þjóðarinnar með eigin tillögum.