140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessar tilgátur hv. þingmanns séu allar mjög líklegar. En gáum að einu. Hér er greinilega verið að hafa stjórnarskrána að leiksoppi. Stjórnarskráin er orðin fórnarlambið og hagsmunir hennar eru greinilega í öðru sæti. Það er alvara málsins. Hugmyndafræðin með stjórnlagaþinginu á sínum tíma var að reyna að leiða ágreininginn í jörð. Uppskeran er sú sem blasir við okkur. Í fyrsta skipti fara fram heiftarlegar umræður um efnisatriði stjórnarskrár þegar menn taka til við að reyna að endurskoða hana.

Fram að þessu hefur tekist vel, almennt talað, að ná sáttum um flestar tilraunir til að endurskoða stjórnarskrána. Núna hefur sú tilraun runnið út í sandinn. Það sem er að gerast núna er að gríðarleg átök eru um efnisatriði en þó fyrst og fremst á þessu stigi um málatilbúnaðinn varðandi stjórnarskrána. Það er auðvitað hörmulegt vegna þess að í þeim slag er stjórnarskráin sjálf fórnarlambið.