140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mig langar að velta upp í þessu andsvari máli sem ég spurði hv. þm. Illuga Gunnarsson út í áðan, máli sem mér finnst vega þungt í þessari umræðu. Ég mun væntanlega leggja fram breytingartillögu er lýtur að því.

Það snertir spurninguna um jöfnun atkvæðisréttar og jöfnun útgjalda ríkisins, eins og ég kýs að orða það. Þarf ekki að skoða málið í heild þegar talað er um að allir Íslendingar eigi að hafa jafnan rétt þegar þeir fara á kjörstað og greiða atkvæði, að vægið eigi að vera jafnt? Er ekki eðlilegt að gera sams konar kröfu um jafnrétti allra til að njóta útdeilinga fjármuna úr ríkissjóði? (Forseti hringir.) Eitthvað hafa nú þingmenn sem kosnir eru samkvæmt reglum um atkvæðavægi um það að segja.