140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti þessari spurningu líka upp vegna þess að í tillögum stjórnlagaráðs er nánast ekki neitt að finna um jafnrétti þegna alls Íslands til ákveðinna hluta. Í 36. gr. er hins vegar kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og talað um dýrategundir í útrýmingarhættu. Ég hlýt að velta því fyrir mér hvort forgangsröðunin sé einfaldlega þannig.

Við landsbyggðarþingmenn höfum margir komið í þennan stól og lýst því margoft yfir hvernig landsbyggðin þarf sífellt að láta undan, þarf sífellt að gefa eftir. Maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki sé rétt að kveða sérstaklega á um rétt landsbyggðarinnar í stjórnarskránni fyrst menn sjá til dæmis ástæðu til að tala sérstaklega um dýrategundir í útrýmingarhættu.