140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir svarið. Ég ætla að áskilja mér rétt til að skoða tillögur hans og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar áður en ég lýsi skoðun minni á þeim. Ég held að það sé hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að mikilvægt er að hafa í huga að þegar spurningar eru valdar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þá getur valið sem slíkt á vissan hátt verið leiðandi. Það er auðvitað það sem manni finnst með tillögu meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er eins og valin hafi verið mál sem þeim þingmönnum sem að henni standa finnst að umræðan eigi að snúast um en athyglinni ekki beint að öðrum þáttum sem eru annars eðlis.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu (Forseti hringir.) að álitaefnin í tillögum stjórnlagaráðs eru svo miklu fleiri og sum miklu stærri en þau sem tilgreind eru í tillögum meiri hlutans.