140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að álitaefnin í tillögum stjórnlagaráðs eru mörg og ég hef nú þegar komið inn á tvö til þrjú. Það er ekkert óeðlilegt að menn greini á um þessa tillögu. Hvorki við né fulltrúar stjórnlagaráðs mega taka það óstinnt upp þó að menn hafi aðrar skoðanir eða vilji rýna tillögur þeirra. Það er mjög eðlilegt að þingmenn vilji gera það.

Það vantar hins vegar að mínu viti að skýra það, alla vega fyrir þeim er hér stendur, af hverju þessar spurningar eru þarna en ekki einhverjar aðrar. Ég hef ekki heyrt nein haldbær rök fyrir því. Ég velti því til dæmis fyrir mér af hverju ekki er spurt um framsal þjóðréttarlegra skuldbindinga. Það er grundvallarspurning hvort menn vilji breyta því, hvort menn vilji gera það núna, hvort menn vilji gera það seinna eða bara gera það yfirleitt. Þetta er spurning sem mér finnst til dæmis að hefði átt heima þarna.