140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég heyri að hann er á svipuðum nótum og ég varðandi þær spurningar sem vakna við lestur þingsályktunartillögurnar, og eins þá breytingartillagnanna sem komu fram við meðferð málsins, um það hvers vegna þessar spurningar voru valdar en ekki aðrar.

Á undanförnum missirum hafa menn mikið verið að velta fyrir sér stöðu forsetaembættisins og ákvæðum stjórnarskrárinnar sem fjallar um það embætti. Fram hafa komið skoðanir allt frá því að leggja embættið niður upp í það að gera það enn valdameira en það er í dag. Vegna þess að mikið hefur verið talað um þetta og menn hafa mikið verið að horfa til þessa kafla þá vekur það sérstaka athygli að ekki er gert ráð fyrir að sérstaklega sé spurt um embættið. Maður þarf eiginlega að fá einhverjar útskýringar á því hvers vegna það hafi ekki verið gert eða kannski var þeim spurningum velt upp í nefndinni og þeim hafnað, nú þekki ég það ekki. Það hefur ekki komið fram í umræðunni.

Er hv. þingmaður sammála mér um að þetta séu spurningar sem væri ágætt að velta fyrir sér að leggja fram ef menn ætla sér á annað borð að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Síðan er það hitt atriðið og það er hvort betra sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna áður en Alþingi hefur rætt efnislega tillögur stjórnlagaráðs. Við erum að fara að spyrja spurninga, biðja þjóðina að svara spurningum, án þess að vita hvort þær tillögur verða í tillögum að nýrri stjórnarskrá. Orðalagið í tillögunum verður væntanlega ekki eins og í spurningunum, eða ég get alla vega ekki séð að það sé öruggt. Hvað heldur hv. þingmaður að hægt sé að gera við niðurstöður úr slíkri skoðanakönnun?