140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki aðeins að þessar spurningar hafi verið helstu álitaefnin sem rekja sig í gegnum alla umræðuna um breytingar á stjórnarskrá, ekki bara á síðustu missirum heldur á mörgum undangengnum árum. Aðallega hefur verið tekist á um náttúruauðlindirnar og þjóðaratkvæði.

Þessar spurningar eru líka vel unnar. Landskjörstjórn hefur farið yfir þær sem og sérfræðingar í gerð spurningavagna af þessu tagi. Ég verð að segja að mér finnst ekki gott þegar menn tala þetta niður með þeim hætti að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem við erum að undirbúa sé einhvers konar skoðanakönnun til að gera eins lítið úr henni og mögulegt er.

Þingmaðurinn kallar eftir sátt og ég hlýt að spyrja: Hvers lags ferli telur hv. þingmaður að hefði getað náðst sátt um við Sjálfstæðisflokkinn í þessum málum?