140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:05]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir málefnalega og góða ræðu. Enn er rætt um það hvernig eigi að skilja hlutverk forsetans.

Það er alveg ljóst hvert er álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á tillögum stjórnlagaráðs og í greinargerðinni með þeim tillögum. Það er verið að staðfesta þær heimildir sem nú þegar eru til staðar. Á því er ekki ætlunin að gera breytingar.

En í tilefni fyrra andsvars í dag þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sneri hraustlega út úr orðum mínum eins og ég væri að vega að sitjandi forseta, vil ég segja að það er algerlega rangt. Það eru aðrir forsetaframbjóðendur en hv. sitjandi forseti lýðveldisins sem lengst hafa viljað ganga í að nota forsetaembættið með öðrum hætti en stjórnskipun ríkisins gefur tilefni til.

Aðeins að öðru atriði, hv. þingmaður fjallar um hvort ekki hefði verið rétt að skipta ferlinu í tvennt, þ.e. koma upp með ákveðin mál og hefja síðan störf um það í haust hvernig ætti að vinna úr þeim. Það er rétt að halda því til haga að þetta er nákvæmlega verkferlið sem er í gangi. Hér munu koma niðurstöður um nokkrar grundvallarspurningar og í þingsal er verið að takast á um hvort þær eigi að vera svona margar, hvort bæta eigi einhverjum við og um hvað eigi að spyrja. Þetta mun síðan leiðbeina hv. þingmönnum um endanlega gerð þess lagafrumvarps sem að lokum verður vonandi að stjórnarskipunarlögum og fjallað verður um í þinglegri meðferð á hausti komanda.

Menn hafa deilt um aðdragandann, frú forseti, en hann er liðinn og ég held að það hafi fáir þolinmæði til að hlusta á mjög margar ræður um hann. Nú ríður á að þingmenn taki einfaldlega höndum saman um vandaða og þinglega meðferð þess frumvarps sem verður lagt fram í haust og geymi sér þessar ágætu ræður um efni nýrrar stjórnarskrár og einstakra ákvæða. Að þessu leyti til er ég sammála hv. þingmanni. Við þurfum að vanda okkur og við höfum öll tækifæri til þess.